Wednesday, January 30, 2008

Draumahöllin

Í nótt staldraði ég við í Draumahöllinni.

Draumahöllin er lítið ríki utan alheimsins þar sem ríkir friður og ró. Ég var staddur í forngrísku umhverfi, nokkrir vitringar sátu í hring við eld og ræddu heimspekileg málefni. Einn þeirra benti mér á hvelfingu þar rétt hjá sem var læst, bak við rimlana sá ég glitta í risavaxið hnattlíkan sem mig langaði að skoða betur.

Skyndilega sofnaði ég í draumnum og ég vaknaði sem „draugur“ í Draumahöllinni. Ég gat gengið í gegnum rimlana og sá þar lykil sem lá á vigt. Ef e-ð var tekið af vigtinni fór viðvörunarkerfi í gang. Ég var með annan lykil í vasanum sem ég skipti út fyrir hinn, gekk aftur til baka og „vaknaði“ handan rimlanna.

Í næstu svipan hitti ég stúlku sem leiðir litla bróður sinn. Þau vilja ólm taka mig með í skemmtigarð sem var handan hornsins. Í rauninni var hvað sem er handan hornsins, maður þurfti bara að ímynda sér það. Í sameiningu ímynduðum við okkur svakalegan skemmtigarð sem jafnaðist á við bestu Disney garða. Eftir nokkrar rússíbanaferðir og rölt langaði mig að prófa lykilinn sem mér hafði hlotnast.

Ég hljóp til baka, fram hjá vitringunum og opnaði hliðið. Við mér blasti risavaxni hnötturinn sem glóði með dularfullum bláum bjarma. Ég gekk nær og ákvað að snerta hann, ég leystist upp og var fluttur á annan stað.

Ég vaknaði í eldhúsi fullu af pappakössum. Það virtist vera í skipi því allt var á fleygiferð, ég gat ekki haldið jafnvægi og krabbar skriðu um gólfið. Það voru tvær hurðir á herberginu, báðar læstar. Skyndilega kom kokkur inn um aðra hurðina og bauð mér eina og aðeins eina ósk. Hann hvarf jafn skyndilega og hann birtist en jafnharðan kom annar kokkur í gegnum hinar dyrnar og sagðist ætla að uppfylla óskina mína.

Ég sá strax eftir þessari ósk. Ég var fastur í e-u eldhúsi sem ég vissi ekkert hvar var og krabbar klipu mig í tærnar sem var ekki þægilegt. Ég öskraði því þessi ósk var ekki það sem ég vildi...

Svo vaknaði ég í alvörunni.

Draumahöllin er ekki fyrir mig.

No comments: