Wednesday, January 30, 2008

Draumahöllin

Í nótt staldraði ég við í Draumahöllinni.

Draumahöllin er lítið ríki utan alheimsins þar sem ríkir friður og ró. Ég var staddur í forngrísku umhverfi, nokkrir vitringar sátu í hring við eld og ræddu heimspekileg málefni. Einn þeirra benti mér á hvelfingu þar rétt hjá sem var læst, bak við rimlana sá ég glitta í risavaxið hnattlíkan sem mig langaði að skoða betur.

Skyndilega sofnaði ég í draumnum og ég vaknaði sem „draugur“ í Draumahöllinni. Ég gat gengið í gegnum rimlana og sá þar lykil sem lá á vigt. Ef e-ð var tekið af vigtinni fór viðvörunarkerfi í gang. Ég var með annan lykil í vasanum sem ég skipti út fyrir hinn, gekk aftur til baka og „vaknaði“ handan rimlanna.

Í næstu svipan hitti ég stúlku sem leiðir litla bróður sinn. Þau vilja ólm taka mig með í skemmtigarð sem var handan hornsins. Í rauninni var hvað sem er handan hornsins, maður þurfti bara að ímynda sér það. Í sameiningu ímynduðum við okkur svakalegan skemmtigarð sem jafnaðist á við bestu Disney garða. Eftir nokkrar rússíbanaferðir og rölt langaði mig að prófa lykilinn sem mér hafði hlotnast.

Ég hljóp til baka, fram hjá vitringunum og opnaði hliðið. Við mér blasti risavaxni hnötturinn sem glóði með dularfullum bláum bjarma. Ég gekk nær og ákvað að snerta hann, ég leystist upp og var fluttur á annan stað.

Ég vaknaði í eldhúsi fullu af pappakössum. Það virtist vera í skipi því allt var á fleygiferð, ég gat ekki haldið jafnvægi og krabbar skriðu um gólfið. Það voru tvær hurðir á herberginu, báðar læstar. Skyndilega kom kokkur inn um aðra hurðina og bauð mér eina og aðeins eina ósk. Hann hvarf jafn skyndilega og hann birtist en jafnharðan kom annar kokkur í gegnum hinar dyrnar og sagðist ætla að uppfylla óskina mína.

Ég sá strax eftir þessari ósk. Ég var fastur í e-u eldhúsi sem ég vissi ekkert hvar var og krabbar klipu mig í tærnar sem var ekki þægilegt. Ég öskraði því þessi ósk var ekki það sem ég vildi...

Svo vaknaði ég í alvörunni.

Draumahöllin er ekki fyrir mig.

Tuesday, January 29, 2008

Garnir

Í nótt dreymdi mig mann sem var búið að skera á kviðinn. Hann hélt á þörmunum sínum og læknir var að þræða einhverju inn í þarmana.

Næst sá ég sjónarhorn þess sem læknirinn var að þræða inn en það skaut frá sér e-s konar sýru sem leysti upp agnir í þörmunum.

Mjög spes.

Monday, January 28, 2008

Lífið var yndislegt (ekki draumur)

Andleg köfnun
-höfnun.
Minningasöfnun
-í sögnum.
Liggja í lögnum
-enda í ögnum.
Vér framtíðinni ei fögnum.

Verður það áfram yndislegt?

(Góð tilraun til að vera póst póstmódernískur, huh?)

Sunday, January 27, 2008

Nótt

Ég svaf illa í nótt, líklega því ég er e-ð kvefaður og veðrið úti hjálpaði ekki beint til.

Ég var staddur í e-s konar kassa. Inni í  kassanum lá götóttur maður, ég spurði hann af hverju hann væri með öll þessi göt. Hann svaraði ekki og annar maður sem stóð rétt hjá sagði: „Sérðu ekki?“ Þá leit ég aftur á manninn, hann hafði hvorki hendur né fætur, líkaminn var afskræmdur og gegnsæ plasthúð lá yfir hlutum af líkama hans sem virtist vera að hluta vélrænn. Þarna lá hann í eymd sinni og ég var að spyrja hvers vegna hann væri götóttur.

Ég fékk hroll og vaknaði kl. fkn sjö á sunnudagsmorgni.

Thursday, January 24, 2008

Hjálp og sund

Það gerðust skrýtnir hlutir í nótt. Mig dreymdi tvo drauma sem voru svohljóðandi:
  • Það er komið fólk heim til mín og það virðist ekki hætta að hjálpa mér. Bak við skápinn minn eru leynidyr að risastóru heimabíóherbergi með fullt af alls konar græjum sem fólkið er alltaf að kíkja inn í. Þau vilja líka endilega sýna mér risastóra gæludýraherbergið sem þau settu upp í kjallaranum. Það er frekar dimmt þar, stór gangur með þrem glerhurðum. Bak við hverjar dyr er svo fullt af dýrum, ég opna fyrstu dyrnar og dýrin hreinlega fljóta út! Maðurinn sem er að hjálpa mér týnir þau saman og m.a. svörtu ekkjuna (sem var víst ekki eitruð). Ég byrja að skoða dýrin og sé að nú á ég simpansa, aðra litla apa, fullt af fiskum, eðlum, snákum og dýr sem hugur minn bjó til á staðnum og ég hef ekki séð áður. Hjálpararni fóru allt í einu en komu svo aftur þrem dögum seinna því ég hafði gleymt að gefa dýrunum að borða.
  • Hinn draumurinn var enn þá skrýtnari. Hann gerist í umhverfi kringum sundlaug. Ég er Mario og Gummi er Luigi (samt erum við alveg líkir sjálfum okkur). Markmið okkar er að reyna fá fleiri stig en hinn. Það eru spilakassar út um allt sem gefa frá sér „sveppi“ sem ég reyni að ná og get þá flogið, náð í fullt af peningum, séð hvar Gummi er og ýmislegt fleira. Þetta endar svo þegar ég kemst inn í e-r leynigöng og næ fullt af peningum (og vinn örugglega).
Það var þá ekki fleira í þetta skiptið :)

Wednesday, January 23, 2008

Flugvellir

Í nótt dreymdi mig að ég væri að koma heim úr fríi. Ég, Valborg og Bjarni (man ekki eftir fleirum) stigum út úr einkaþotu og löbbuðum fram hjá öllum biðröðum inn í landið. Á leiðinni í gegnum fríhöfninna varð ég fyrir mjög vandræðalegu atviki sem ég ætla ekki að segja frá hér. Ég ákvað svo að fara á undan til að sækja bílinn. Bíllinn var gamall Benz, blár á litinn með skrýtnum bláum lit sem ég kann ekki nafnið á. Hann lét illa af stjórn og ég klessti nokkrum sinnum á áður en ég náði að leggja fyrir framan flugvöllinn til að sækja Bjarna og Valborgu. Svo keyrði ég heim og ég vaknaði því ég var svo hræddur hvað ég keyrði hratt.

Tuesday, January 22, 2008

Sápa/slím

Í nótt dreymdi mig að ég væri útataður í sápu.

Sunday, January 20, 2008

Stundum

Stundum man maður draumana ekki nógu vel.

Í nótt dreymdi mig tvo skrýtna drauma en ég man bara brot úr þeim svo þeir eru illskiljanlegir.

T.d. var ég
  • Í garði fullum af skordýrum sem voru að skríða á mér.
  • Að skera út Pokémon kalla úr tré (jafn fáránlegt og það virðist hljóma).
  • Að koma heim til mín þar sem risastórt partí var í gangi en þegar ég steig inn um dyrnar var húsið tómt.
  • Að hanga e-ð með bekknum mínum áður en við færum í skólann sem var um kvöldið en ekki morguninn.
  • Að setja límmiða á tré.
Því miður er ekki mikið samræmi í þessu en ég vona að næsti draumur verði skýrari.

Friday, January 18, 2008

Skemmtistaðir og ríkið

Ég er í Kringlunni. Í hvert skipti sem mig dreymir Kringluna virkar hún á mig eins og Hogwart skóli. Leynigangar út um allt, faldar búðir og maður veit engan vegin hvar maður er (er Kringlan kannski bara þannig?).

Ég, Árni og Gummi röltum að nýjum skemmtistað og komumst inn. Við setjumst í þægilegan sófa og byrjum að drekka. Gluggarnir á skemmtistaðnum er mjög stórir og mér til mikillar furðu virðumst við vera í mörg hundruð metra hæð þegar ég lít út.

En jæja, við stijum þarna í makindum í sófanum þegar nefnd á vegum ríkisins ryðst skyndilega inn á staðinn. Kona sem minnir einna helst á einkaritara strunsar að okkur og biður okkur um skilríki. Við neitum því og þá byrjar hún að tala um að allir sem eru undir lögaldri á staðnum verði reknir út og þeir mæti ekki í vinnu næsta dag vegna brotsins. Þá spurði ég konuna hvort hún væri með vottorð fyrir þessu og hún sýnir mér nafnið á gamla yfirmanni mínum (sem ég var búinn að gleyma hvað hét, merkilegt nokk!). Við látum reka okkur út hið snarasta hæstánægðir með að þurfa ekki að mæta í vinnu næsta dag svo við byrjum að slæpast e-ð í Kringlunni.

Draumurinn endaði svo á því að villtumst í Kringlunni og komumst ekki heim :(

Thursday, January 17, 2008

Dauði

Í nótt var ég staddur á fínu veitingahúsi með fjölskyldunni. Skyndilega kastaði ég frá mér fallegu kristalglasinu sem splundraðist í þúsund mola þegar ég greip ömmu mína. Það var um seinan - hún var dáin. Ég öskraði og vaknaði við það.

Köttur útí mýri, sett'upp á sig stýri, út'er ævintýri.

Wednesday, January 16, 2008

Júdó

Í nótt dreymdi mig að ég væri á júdóæfingu þar sem við æfðum aðallega spörk en líka lása.

Ekkert meira :(

Tuesday, January 15, 2008

Spil og krabbamein

Ég hef ákveðið að stofna til draumadagbókar á netinu þar sem draumarnir verða raunverulegri með hverjum deginum. Ég hef mest talið fimm drauma á einni nóttu hingað til og marga svo raunverulega að ég átti í erfiðleikum með að finna út hvort um svefn eða vöku væri að ræða. Dagbókin er aðallega fyrir sjálfan mig en staðsett hér til þæginda og fyrir aðra að njóta, vonandi skemmtið þið ykkur e-ð yfir þessum vægast sagt skrýtnu draumum.

Í nótt dreymdi mig tvo drauma sem ég man eftir en þeir voru frekar sundurlausir báðir.
  1. Í fyrsta draumnum var ég staddur heima hjá ónefndum vini mínum þar sem okkur var tilkynnt að móðir hans væri nýlátin vegna krabbameins. Það sem furðaði mig mest við drauminn var að ég gat ekki trúað því að hún væri 20 ára en sá sem tilkynnti okkur andlátið var fastur á því. Við kipptum okkur svo ekkert frekar upp við þessa tilkynningu.
  2. Næst erum við stödd í gamla sumarbústaðnum mínum þar sem ég, Erlingur, Gummi og Carsten spilum eitt skemmtilegasta spil sem ég hef nokkurn tíman spilað. Ég á erfitt með að lýsa því en það var fjandi skemmtilegt! Svona eins og blanda af Risk og e-m herkænskuleikjum. Spilið gengur hins vegar ekki vel því Gummi er mjög tapsár og hrindir öllu af spilaborðinu þegar hann lendir í slæmri stöðu en svo svindlar hann einnig ákaft.
Það var þá ekki fleira í bili, vonandi dreymir mig e-ð skemmtilegt í nótt :)